Gluggaveður

Það sem er eiginlega verst í próflestri er þegar það er gott veður úti. Það þarf samt ekki að vera gott veður, heldur dugar að það sé gluggaveður. Núna er t.d. gott gluggaveður sjáanlegt út um gluggann minn. Það er ekki gott. Þá vill maður auðvitað fara út og gera eitthvað annað en að lesa fyrir próf.

Nokkrar lausnir eru á þessu vandamáli. Ein gæti falist í því að draga einfaldlega fyrir gluggann, en sú lausn virkar eiginlega ekki því að þú veist betur. Önnur gæti verið sú að setja flatsjónvarp í gluggann og spila upptöku af dæmigerðu íslensku veðri, s.s. roki og rigningu. Þú auðvitað veist betur í þessu tilfelli líka, en þú hefur samt á tilfinningunni að þú viljir frekar vera innandyra þegar þú sérð og heyrir í leiðinlega veðrinu. Eða það held ég allavega.

Ég mun allavega ekki prófa þetta þar sem ég á ekki flatsjónvarp. Veit samt um tvo sem eiga nokkuð stórar útgáfur af þessum tækjum. Annar er á leikskólaaldri og ég gæti alveg trúað því að hann myndi vilja prófa þetta með mér, en pabbi hans tæki það líklega ekki í mál. Hinn gæti mögulega prófað þetta, en hann en dyggur stuðningsmaður aðferðarinnar að draga fyrir gluggann.

Önnur auðveldari lausn væri að líma filmu á gluggann sem væri með mynd af slæmu veðri, og setja svo garðslöngu við gluggann sem myndi úða vatni á hann. Þetta myndi örugglega virka og er tiltölulega einfalt.

2 Replies to “Gluggaveður”

  1. Ég á gamla filmu sem ég gæti lánað þér. Gæti vantað e-ð smá upp á en þá málar þú restina… ég á nefnilega svarta málningu sem þú getur fengið líka.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *